Fara í efni

Frístundaheimili við grunnskóla Borgarbyggðar

Frístundaheimili eru starfrækt við báða grunnskóla Borgarbyggðar. Þar er 6 - 9 ára börnum boðið upp á fjölbreytt tómstundastarf eftir að skóladegi lýkur. Leitast er við að bjóða upp á spennandi viðfangsefni sem veita börnum útrás fyrir leik- og sköpunarþörf. Leiðarljós frístundaheimilanna er að hver einstaklingur fái að njóta sín og þroskist í umhverfi sem einkennist af hlýju, öryggi og virðingu.

Lögð er áhersla á að þroska félagslega færni í samskiptum í gegnum leik og starf sem og virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu. Frístundaheimilin leitast við að nota lýðræðislega starfshætti, efla hæfni barnanna til að móta sér sjálfstæðar skoðanir og hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður.

Þjónusta við börn með sérþarfir er skipulögð í hverju frístundaheimili fyrir sig í samvinnu við foreldra, skóla og aðra fagaðila sem tengjast börnunum.

Unnið er samkvæmt viðmiðum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um hlutverk, markmið, leiðarljós og viðmið um gæði starfsemi frístundaheimila sem nálgast má hér.

Nánari upplýsingar um  starfsemi frístundaheimila veitir Svala Eyjólfsdóttir, tómstundafulltrúi í tölvupósti á netfangið svala@umsb.is.

UMSÓKNARVEFUR