Fara í efni

Grunnskólar í Borgarbyggð

Í Borgarbyggð eru starfandi tveir grunnskólar, Grunnskólinn í Borgarnesi og Grunnskóli Borgarfjarðar sem starfræktur er á þremur starfsstöðvum. Þær eru GBF-Hvanneyri, GBF-Kleppjárnsreykjum og GBF-Varmalandi. Skólarnir starfa eftir lögum og reglugerðum um grunnskóla, aðalnámskrá grunnskóla og skólastefnu Borgarbyggðar. Þeir móta áherslur sínar og stefnur í skólanámskrá sem aðgengileg er á heimasíðum skólanna.

Upplýsingar um grunnskóla veitir sviðsstjóri fjölskyldusviðs í síma 433-7100.

Skólaþjónusta grunnskóla

Stefna Borgarbyggðar um stuðning við nemendur tekur mið af alþjóðlegum samþykktum um skóla án aðgreiningar og að réttindi fatlaðs fólks séu höfð að leiðarljósi í allri stefnumörkun skólastarfs.

Skólaþjónusta mótast af heildarsýn á aðstæður og hagsmuni barna og unglinga og virku samstarfi við foreldra. Í reglugerð nr. 444/2019 um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum kemur fram að hlutverk skólaþjónustu sé að veita stuðning við nemendur í leik- og grunnskólum og foreldra þeirra. Einnig að veita starfsfólki skóla og starfsemi þeirra stuðning. Skal þjónustan beinast að því að efla skóla sem faglegar stofnanir sem geti leyst flest þau viðfangsefni er upp koma í skólastarfinu.

Starfsfólk skólaþjónustu og hlutverk

Námsráðgjafi

Námsráðgjafi stendur vörð um velferð grunnskólanemenda og starfar í þágu þeirra. Hann skal veita ráðgjöf varðandi nám, námstækni og námsvenjur. Einnig vinnur námsráðgjafi að forvörnum innan skólanna. Hann vinnur með nemendum, foreldrum, kennurum, skólastjórnendum og öðrum starfsmönnum skóla að velferð nemenda. Áhersla er á leiðir sem styrkja sjálfsmynd nemenda, líðan og félagsfærni.

Sálfræðingar

Sálfræðingar sinna nemendum í grunnskólum ýmist að beiðni skóla eða forráðamanna. Hlutverk sálfræðinganna felst í greiningu á vanda barna, ráðgjöf til foreldra og starfsfólks. Sálfræðingar sitja nemendaverndarráðsfundi í grunnskólum sveitarfélagsins og eru með fasta ráðgjöf í skólum.

Talmeinafræðingar

Talmeinafræðingar sinna greiningu og ráðgjöf í grunnskólum vegna barna með framburðarfrávik, málþroskafrávik og stam. Talmeinafræðingar eru með fasta ráðgjöf í skólum.

Atferlisfræðingur

Atferlisfræðingur er ráðgefandi í málum þar sem þarf að auka færni barna í daglegu lífi. Hann metur færni barnsins og leggur upp leiðir með starfsfólki og foreldrum með það markmið að barnið nái betri árangri.

Lestrarráðgjafi

Lestrarráðgjafi sinnir ráðgjöf við grunnskóla sveitarfélagsins. Hann styður starfsfólk skólanna við að byggja upp ríkulegt mál- og læsisumhverfi og að nota aðferðir byrjendalæsis í skólunum. Lestarráðgjafi er einnig leiðtogi byrjendalæsis og heldur utan um þá kennara sem eru í byrjendalæsiskennaranámi með reglulegum vettvangsheimsóknum og leiðsögn. Lestrarráðgjafi veitir einnig kennsluráðgjöf sé þess óskað.

Málstjóri

Málstjóri sér um að börn og foreldrar hafi greiðan aðgang að samþættri þjónustu þar sem áhersla er á farsæld barnsins. Hann sér til þess að nemandi, foreldrar og kennarar fái upplýsingar um þjónustu við hæfi, tryggir aðgang að mati á þjónustuþörf, sér til þess að stuðningsáætlun sé gerð og fylgir því eftir að þjónusta sé veitt í samræmi við stuðningsáætlun.

Málstjóri sinnir einnig faglegri ráðgjöf og stuðningi við foreldra, kennara og starfsfólk skóla og fylgir eftir greiningum sérfræðinga. Hann tekur þátt í mótun fræðslu fyrir starfsfólk skóla og þróun kennsluhátta.

Önnur sérfræðiráðgjöf

Grunnskólar sveitarfélagsins geta leitað til ráðgjafa um mál sem tengjast nemendum eða kennurum skólans með það að markmiði að efla skólana sem faglegar stofnanir og getu þeirra til að leysa flest þau viðfangsefni sem upp koma í skólastarfinu.

Skólaakstur

Reglur Borgarbyggðar um skólaakstur byggja á reglum um skólaakstur í grunnskóla, nr. 656/2009 með síðari breytingum, ásamt sérákvæðum samkvæmt þessum reglum. Reglur þessar taka til skipulags skólaaksturs milli heimilis og grunnskóla. Með skólaakstri er átt við akstur á milli heimilis og grunnskóla innan skólahverfis. Borgarbyggð ber ábyrgð á öryggi og velferð nemenda í skólaakstri og að uppfylltar séu kröfur laga og reglugerða um umferðaröryggi. Borgarbyggð skipuleggur skólaakstur í dreifbýli og frá þéttbýliskjörnum utan Borgarness, þar sem grunnskólanemendur eiga lögheimili, og skal akstursvegalengd milli heimilis og skóla ekki vera minni en 1,5 km. Borgarbyggð skipuleggur einnig skólaakstur innan Borgarness. Gerðir eru samningar við verktaka um ákveðnar leiðir samkvæmt útboði hverju sinni. Við vissar aðstæður er heimilt að semja við forráðamenn nemenda um þátttöku þeirra í skólaakstri gegn greiðslu. Þetta á fyrst og fremst við þegar heimili nemanda er langt frá leið skólabíls og foreldrar geta keyrt barnið í veg fyrir skólabílinn.

Upplýsingar um skólahverfi og skólaakstur veitir sviðsstjóri fjölskyldusviðs í síma 433-7100.

Gagnabanki fyrir lestur

Hér má finna bæklinga um hugmyndir fyrir heimalestur fyrir hvert aldursstig. Hér er einnig að finna ýmsar upplýsingar um lestur og krækjur á myndbönd frá Menntamálastofnun.

Lestur samanstendur af fjölmörgum grunnþáttum og færni á hverju svið er mikilvægur liður í heildar lestrarfærni hvers barns.

Gagnabanki

 
Grunnskóli Borgarfjarðar
Skólastjóri: Helga jensína Svavarsdóttir
Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi
311
Grunnskólinn í Borgarnesi
Skólastjóri: Júlía Guðjónsdóttir
Gunnlaugsgötu 13
310 Borgarnesi