Fara í efni

Skólaþjónusta leik- og grunnskóla

Skólaþjónusta leik- og grunnskóla

Stefna Borgarbyggðar um stuðning við nemendur tekur mið af alþjóðlegum samþykktum um skóla án aðgreiningar og að réttindi fatlaðs fólks séu höfð að leiðarljósi í allri stefnumörkun skólastarfs.

Skólaþjónusta mótast af heildarsýn á aðstæður og hagsmuni barna og unglinga og virku samstarfi við foreldra. Í reglugerð nr. 444/2019 um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum kemur fram að hlutverk skólaþjónustu sé að veita stuðning við nemendur í leik- og grunnskólum og foreldra þeirra. Einnig að veita starfsfólki skóla og starfsemi þeirra stuðning. Skal þjónustan beinast að því að efla skóla sem faglegar stofnanir sem geti leyst flest þau viðfangsefni er upp koma í skólastarfinu.

Starfsfólk skólaþjónustu og hlutverk

Námsráðgjafi

Námsráðgjafi stendur vörð um velferð grunnskólanemenda og starfar í þágu þeirra. Hann skal veita ráðgjöf varðandi nám, námstækni og námsvenjur. Einnig vinnur námsráðgjafi að forvörnum innan skólanna. Hann vinnur með nemendum, foreldrum, kennurum, skólastjórnendum og öðrum starfsmönnum skóla að velferð nemenda. Áhersla er á leiðir sem styrkja sjálfsmynd nemenda, líðan og félagsfærni.

Sálfræðingar

Sálfræðingar sinna nemendum í leik- og grunnskólum ýmist að beiðni skóla eða forráðamanna. Hlutverk sálfræðinganna felst í greiningu á vanda barna, ráðgjöf til foreldra og starfsfólks. Sálfræðingar sitja nemendaverndarráðsfundi í grunnskólum sveitarfélagsins og eru með fasta ráðgjöf í skólum og leikskólum.

Talmeinafræðingar

Talmeinafræðingar sinna greiningu og ráðgjöf í leik- og grunnskólum vegna barna með framburðarfrávik, málþroskafrávik og stam. Talmeinafræðingar eru með fasta ráðgjöf í skólum og leikskólum.

Atferlisfræðingur

Atferlisfræðingur er ráðgefandi í málum þar sem þarf að auka færni barna í daglegu lífi. Hann metur færni barnsins og leggur upp leiðir með starfsfólki og foreldrum með það markmið að barnið nái betri árangri.

Lestrarráðgjafi

Lestrarráðgjafi sinnir ráðgjöf við leik- og grunnskóla sveitarfélagsins. Hann styður starfsfólk skólanna við að byggja upp ríkulegt mál- og læsisumhverfi og að nota aðferðir byrjendalæsis í skólunum. Lestarráðgjafi er einnig leiðtogi byrjendalæsis og heldur utan um þá kennara sem eru í byrjendalæsiskennaranámi með reglulegum vettvangsheimsóknum og leiðsögn. Lestrarráðgjafi veitir einnig kennsluráðgjöf sé þess óskað.

Málstjóri

Málstjóri sér um að börn og foreldrar hafi greiðan aðgang að samþættri þjónustu þar sem áhersla er á farsæld barnsins. Hann sér til þess að nemandi, foreldrar og kennarar fái upplýsingar um þjónustu við hæfi, tryggir aðgang að mati á þjónustuþörf, sér til þess að stuðningsáætlun sé gerð og fylgir því eftir að þjónusta sé veitt í samræmi við stuðningsáætlun.

Málstjóri sinnir einnig faglegri ráðgjöf og stuðningi við foreldra, kennara og starfsfólk leikskóla og fylgir eftir greiningum sérfræðinga. Hann tekur þátt í mótun fræðslu fyrir starfsfólk leikskóla og þróun kennsluhátta.

Önnur sérfræðiráðgjöf

Grunnskólar sveitarfélagsins geta leitað til ráðgjafa um mál sem tengjast nemendum eða kennurum skólans með það að markmiði að efla skólana sem faglegar stofnanir og getu þeirra til að leysa flest þau viðfangsefni sem upp koma í skólastarfinu.

Leikskólar sveitarfélagsins geta verið í samstarfi við skólaþjónustuna um aðstoð annarra sérfræðinga en hér eru nefndir.