Fara í efni

Háskólar í Borgarbyggð

Háskólinn á Bifröst

Háskólinn á Bifröst á rætur að rekja  til Samvinnuskólans sem var stofnaður árið 1918 í Reykjavík og hóf starfsemi í desember.Sumarið 1955 var skólinn fluttur að Bifröst í Norðurárdal í Borgarfirði og hefur verið starfræktur þar síðan. Þá urðu mikil tímamót í sögu skólans. Sr. Guðmundur Sveinsson tók við sem skólastjóri af Jónasi Jónssyni, sem lét af störfum fyrir aldurs sakir. Jafnframt var skólinn endurmótaður og endurskipulagður frá grunni sem heimavistarskóli. Nú hefur hins vegar risið myndarlegt háskólaþorp á Bifröst.

Bifröst er einstakur skóli með sögu sem spannar næstum 100 ár. Skólinn er svokallaður kampusháskóli og hefur þróað og innleitt sérstaka kennslufræði. Í dag er Háskólinn á Bifröst fjölbreyttur háskóli, sem býður nemendum sínum upp á fræðslu, þekkingu og þjálfun í viðskiptafræði og viðskiptalögfræði sem og heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Hlutverk skólans er að búa nemendur undir ábyrgðar-, forystu- og stjórnunarstörf í innlendu og alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.

Nánari upplýsingar um Háskólann á Bifröst má nálgast á heimasíðu hans.

 

Landbúnaðarháskóli Íslands

Landbúnaðarháskóli Íslands er reistur á grunni öflugrar rannsóknastofnunar og tveggja gróinna menntastofnana á landbúnaðarsviði, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Garðyrkjuskóla ríkisins, Reykjum í Ölfusi. Landbúnaðarháskóli Íslands tók til starfa í upphafi árs 2005.

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur mikla sérstöðu meðal háskóla hérlendis. Þessi sérstaða felst fyrst og síðast í viðfangsefni skólans sem er náttúra Íslands - nýting, viðhald og verndun. Viðfangsefni kennslu og rannsókna við Landbúnaðarháskóla Íslands er því landið og það sem á því lifir.

Landbúnaðarháskóli Íslands er lítill háskóli sem einnig markar honum sérstöðu. Andrúmsloft kennslunnar og félagslífsins verður þar af leiðandi mun persónulegra en ella enda mikið um hópavinnu og sameiginlega úrlausn verkefna. Námsbrautir skólans eru einungis í boði við Landbúnaðarháskólann en brautirnar eru hvort tveggja á starfsmennta- og á háskólasviði og er mikil samlegð á milli skólastiganna.

Nám á háskólabrautum og í búfræði er kennt á Hvanneyri í Borgarfirði og á Keldnaholti. Nám á garðyrkjubrautum er kennt á Reykjum í Ölfusi, skólinn er staðsettur fyrir ofan sundlaugina í Hveragerði.

Nánari upplýsingar um Landbúnaðarháskóla Íslands má nálgast á heimasíðu hans.