Fara í efni

Skólaþjónusta leik- og grunnskóla

Skólaþjónusta Borgarbyggðar

Skólaþjónusta Borgarbyggðar starfar samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008, lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og reglugerð nr. 584/2010. Hlutverk hennar er annars vegar að styðja við nemendur í leik- og grunnskólum og foreldra þeirra og hins vegar að styðja við starfsemi skóla og starfsfólk þeirra. Skólaþjónustan á að beinast að því að efla skóla sem faglegar stofnanir sem geti leyst flest þau viðfangsefni sem upp koma í skólastarfi og veita starfsfólki skóla leiðbeiningar og aðstoð við störf sín eftir því sem við á.

Starfsmenn skólaþjónustu

Starfsmenn skólaþjónustu eru sérkennsluráðgjafi, námsráðgjafi, sálfræðingar, talmeinafræðingar og námsráðgjafi. Einnig starfa deildarstjórar sérkennslu í grunnskólum og sérkennslustjórar í leikskólum.

Geta foreldrar leitað milliliðalaust til sálfræðinga skólaþjónustu.

Sérkennsluráðgjafi

Við leik- og grunnskóla starfar sérkennsluráðgjafi sem annast faglega ráðgjöf og stuðning við foreldra, kennara og starfsfólk skóla og fylgir eftir greiningum sérfræðinga. Hún tekur einnig þátt í mótun fræðslu fyrir starfsfólk og þróun kennsluhátta.

Námsráðgjafi

Námsráðgjafi stendur vörð um velferð grunnskólanemenda og starfar í þágu þeirra. Hún veitir ráðgjöf varðandi nám, námstækni og námsvenjur.

Sálfræðingar

Sálfræðingar sinna nemendum í leik- og grunnskólum ýmist að beiðni skóla eða forráðamanna. Hlutverk skólasálfræðinga felst í greiningu á vanda barna, ráðgjöf til foreldra og starfsfólks og stuðningsviðtölum við börn.

Talmeinafræðingar

Talmeinafræðingar sinna greiningu og ráðgjöf í leik- og grunnskólum vegna barna með væg framburðarfrávik, málþroskafrávik og stam. Þær eiga einnig frumkvæði að samstarfi við aðila sem annast sérhæfðari greiningar- og meðferðarúrræði á vegum ríkisins á grundvelli sjúkratrygginga vegna barna með alvarleg framburðarfrávik, málþroskafrávik og stam.

Deildarstjórar sérkennslu í grunnskólum

Deildarstjóri sérkennslu í grunnskólum stjórnar og skipuleggur sérkennslu ásamt því að veita kennurum faglega ráðgjöf. Hann fylgist með nýjungum á sviði kennslu og er leiðandi í faglegu starfi.

Sérkennslustjórar leikskóla

Hlutverk sérkennslustjóra í leikskólum er meðal annars að stjórna skipulagningu, framkvæmd og endurmati sérkennslunnar í leikskólanum ásamt leikskólastjóra. Einnig annast sérkennslustjóri ráðgjöf til starfsmanna leikskólans og er faglegur umsjónarmaður sérkennslu.