Fara í efni

Garðar og græn svæði

Skallagrímsgarður

Skallagrímsgarður er skrúðgarður sem er staðsettur milli Íþróttamiðstöðvarinnar í Borgarnesi og Borgarbrautar. Árið 1930 keyptu UMF. Skallagrímur og Kvenfélag Borgarness í sameiningu túnblett í norðanverðum Skallagrímsdal og var garðurinn byggður upp og ræktaður með hefðbundnu skrúðgarðayfirbragði þess tíma. Í garðinum er að finna nokkur  listaverk s.s. afsteypu af Óðinshrafni eftir Ásgrím Sveinsson, lágmynd af Agli Skallagrímssyni eftir Önnu Maríu Nilsen og styttu  eftir Guðmund frá Miðdal, sem nýlega var endurgerð og sómir sér vel í tjörn í garðinum. Aðkoma í Skallagrímsgarð er frá Borgarbraut og Þorsteinsgötu (við Íþróttamiðstöð).

Englendingavík

Englendingavík er skjólsæl vík sem liggur í elsta bæjarhluta Borgarness.  Svæðið er vinsæll viðkomustaður fjölskyldufólks enda friðsæld og fuglalíf helsta einkenni svæðisins.  Þar er líka Bjössaróló sem er kenndur við Björn H. Guðmundsson sem byggði upp leikvöllinn og notaði til þess endurnýtt efni. Hann var barnelskur mjög og lagði áherslu á að kenna börnum virðingu fyrir náttúrunni. Aðkoma að Bjössaróló og Englendingavík er best frá Brákarsundi, eða frá íþróttasvæði.

Þjóðskógar Skógræktarinnar eru opnir almenningi og eru Norðtunguskógur og Jafnaskarðsskógur  þjóðskógar í Borgarbyggð. Þá eru skógar Skógræktarfélags Borgarfjarðar vinsælir til útivistar, svo sem Daníelslundur, Grafarkot og Reykholt auk Skjólbeltanna á Hvanneyri  sem er útivistarsvæði á Hvanneyri.