Fara í efni

Sorphirða

Úrgangsmál

Breytingar í úrgangsmálum árið 2023

Um áramótin 2023 tóku gildi breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs sem fela í sér breytingar á sorphirðu íbúa um allt land. Markmið með lagabreytingunum er að auka endurvinnsluhlutfall úrgangs á landinu og draga úr urðun. Um er að ræða mikilvæg aðgerð í loftslagsmálum, enda er urðun úrgangs stór þáttur í losun gróðurhúsaloftegunda.

Þá hafa nýju lögin í för með sér að sveitarfélög fá greitt frá Úrvinnslusjóði fyrir sérsöfnun á úrgangi og eru endurgreiðslur sjóðsins í samræmi við það magn sem safnast af hverjum úrgangsflokki í sérsöfnun. Því skiptir verulegu máli fyrir sveitarfélagið og íbúa þess að vel takist til og að flokkaður úrgangur skili sér á réttan hátt til endurvinnslu. Því betur sem til tekst í flokkun, því hærri verður endurgreiðsla úr Úrvinnslusjóði sem mun svo skila sér til baka til íbúa með lækkun á gjaldi vegna úrgangsmála (sorpgjöldum). Engar greiðslur berast fyrir þann úrgang sem fer í tunnu fyrir almennt sorp. Sá úrgangur fer í urðun með tilheyrandi kostnaði og því er afar mikilvægt að henda engu í þá tunnu sem hægt er að endurvinna.

Breytt innheimta

Líkt og íbúar urðu varir við þegar álagningarseðill fasteignagjalda barst um áramót, hefur innheimtu vegna úrgangsmála verið breytt og nú er innheimt í anda „Borgað-þegar-hent-er“ hugmyndafræðina. Valin var svokölluð rúmmálsleið, en þá er hluti gjaldsins ákveðið fast gjald en til viðbótar er innheimt samkvæmt stærð og fjölda íláta við hvert heimili.

Nýtt samræmt flokkunarkerfi

Helstu breytingar eru að nú verður flokkað í fjóra úrgangsflokka við heimahús:

  • Pappír og pappi
  • Matarleifar
  • Plast
  • Blandaður úrgangur.

Merkingar verða samræmdar og samskonar flokkun um allt land. Ekki er lengur heimilt að setja allt endurvinnsluefni saman í grænu tunnuna, heldur skal aðgreina plast og pappír og málmum skal skilað á grenndarstöðvar.

Því bætist við eitt ílát við heimahús og áætlað er að dreifing íláta fari fram í maí og júní 2023.

Flokkum í rétta tunnu

Tökum ábyrgð - Minnkum urðun

Hvað verður um hráefnið?

Flokkunartöflur/Sorting instructions/Instrukcja sortowania

Á íslensku:

English:

Polski:

Umhirða og staðsetning íláta

Gott er að hafa í huga að fjarlægð íláta frá vegi sé ekki mikil eða valdi starfsmönnum okkar óþarfa álagi við sorphirðu. Best er að hafa ílát sem næst götu og í tunnuskýlum.

Að vetri til er ætlast til að íbúar moki frá tunnum og hálkuverji. Gríðarlega erfitt er að draga ílátin í miklum snjó auk þess sem hálka getur verið varasöm.

Yfirfull ílát geta skapað vandræði við losun. Hætta er á að vargfugl komist í úrganginn eða innihald tunnunnar fari að fjúka um. Þess vegna er mikilvægt að minnka ummál úrgangsins eins og hægt er, eins og með því að brjóta saman pappa o.s.frv. Hægt er að hafa samband og fá útveguð aukaílát ef ílátin eru að fyllast fljótt og fyrir losunardag. Það er rukkað samkvæmt verðskrá. Einnig er hægt að koma með umfram magn af úrgangi beint á móttökustöð við Sólbakka. Íbúar bera ábyrgð á sínum ílátum. Æskilegt er að hreinsa þau eftir þörfum. Það kemur í veg fyrir að óhreinindi safnist fyrir í ílátinu og skapi ólykt.

Breytingar á ílátum – umsóknir

Til að fá breytingar á ílátum við húsvegg þarf að sækja um slíkar breytingar með rafrænum hætti. Ekki er hægt að afþakka tunnur.

EYÐUBLAÐ

Spartunnan

Boðið er uppá að skipta út íláti fyrir blandaðan úrgang og fá minna ílát og lækka þannig gjöld. Lítið ílát er einungis í boði fyrir blandaðan úrgang að svo stöddu.

Fyrirkomulag í fjölbýlishúsum

Meirihluti eigenda eða húsfélag þarf að óska eftir breytingum á sorpílátum. Þau gjöld sem greidd eru fyrir sorphirðuna fara eftir fjölda og tegundum íláta og hafa slíkar breytingar áhrif á alla íbúa hússins.

Óskir um breytingar á fjölda íláta við fjölbýli skal senda með rafrænum hætti.

Íbúar í smærra fjölbýli þar sem ekki er starfandi húsfélag þurfa allir að samþykkja breytingar og senda tölvupóst þess efnis á netfangið thjonustuver@borgarbyggd.is

Sorpgeymslur

Sorpgeymslur eru almennt í sameign fjöleignarhúsa og bera eigendur allir óskipta ábyrgð á sameigninni. Húsfélagið og eigendur bera ábyrgð á sameiginlegum kostnaði og því ábyrgð á kostnaði sem hlýst af rangt flokkuðum úrgangi. Nánari útlistun á réttindum og skyldum eiganda má nálgast í lögum um fjöleignarhús.

Grenndarstöðvar

Á komandi vikum verða settar upp grenndarstöðvar í sveitarfélaginu til söfnunar á málmum, gleri og textíl. Þannig fara málmar ekki lengur í tunnu við húsvegg, heldur skal skila þeim á grenndarstöðvar. Áætlað er að setja upp grenndarstöðvar til reynslu við íþróttasvæði í Borgarnesi, við Arnarklett á Hvanneyri og við íþróttasvæði/grunnskólann á Kleppjárnsreykjum.

Öðrum flokkum á að skila á móttökustöð. Mikilvægt er að ganga vel um svæðin.

Málmar: Litlir og hreinir málmhlutir eins og niðursuðudósir, krukkulok og sprittkertakoppar.

Gler: Hrein ílát og flöskur úr gleri. Tappar og krukkulok mega ekki fara með gleri heldur skal flokka með plasti og málmi eftir því sem við á.

Textíll: Allur textíll eins og fatnaður, lín og efnisbútar.

Í og við sumarhúsahverfi er tekið á móti úrgangi og endurvinnsluhráefni frá eigendum sumarhúsa og skulu eigendur sumarhúsa skila öðrum úrgangi á móttökustöð í Borgarnesi eða á grenndarstöðvar.

Móttökustöð

Í sveitarfélaginu er rekin móttökustöð við Sólbakka í Borgarnesi. Þar er tekið á móti öllum úrgangi og endurvinnsluhráefni. Íbúar skulu flokka úrganginn eins mikið og mögulegt er áður en komið er á móttökustöðina til þess að flýta afgreiðslu.

Ekki er tekið á móti úrgangi í svörtum pokum heldur skal nota glæra poka. Þetta er gert til að koma í veg fyrir urðun á efni og hlutum sem hægt er að koma í betri farveg.

Opnunartímar Móttökustöðvar við Sólbakka
Sunnudaga til föstudaga kl. 14:00-18:00.
Laugardagar kl.10:00-14:00.

Söfnun rúlluplasts

Rúlluplast er sótt heim á sveitabæi og þarf plastið að vera hreint og laust við annað rusl.

Á sorphirðudagatali má sjá hvenær plasti er safnað.

Urðunarstaður fyrir óvirkan úrgang

Tekið er á móti úrgangi sem flokkast sem óvirkur úrgangur á sorpmeðhöndlunarsvæði Borgarbyggðar við Bjarnhóla. Verktakar og rekstraraðilar þurfa ða óska eftir aðgangi að svæðinu við áhaldahús Borgarbyggðar.

Förgun dýraleifa

EYÐUBLAÐ

Pantanir eru gerðar með því að smella á appelsínugula reitinn hér fyrir ofan.

Þjónustupantanir skulu berast fyrir klukkan 8:00 á mánudegi og fer hirðing fram vikulega á tímabilinu 1. maí til 30. nóvember. Hirðing fer fram á tveggja vikna fresti á tímabilinu 1. desember til 30. apríl. Hirðing hefst á mánudagsmorgni, og getur tekið tvo til þrjá daga að sinna svæðinu öllu á álagstímum.

Heimilt er að senda pöntun á netfangið dyraleifar@borgarbyggd.is.

Tenglar á áhugaverðar upplýsingar

Íbúafundur sem haldinn var í tengslum við innleiðingu á fjórðu tunnunni.

Hlekkur á upptökuna

Úrgangsvefur UST www.urgangur.is