Athyglisverðir staðir

Landsvæðið sem Borgarbyggð nær yfir er víðfemt, nær allt frá Haffjarðará í vestri til Skarðsheiðar í suðri, en sveitarfélagið er um 4.850 ferkílómetrar að stærð. Blómlegar sveitir, líflegt mann- og menningarlíf, náttúrufergurð og mikil saga. Hér er því margt athyglisvert og skemmtilegt að sjá.

Innan Borgarbyggðar eru eftirtalin svæði talin frá vestri: Kolbeinsstaðahreppur, Hraunhreppur, Álftaneshreppur, Borgarhreppur, Borgarnes, Norðurárdalur, Stafholtstungur, Þverárhlíð, Hvítársíða, Hálsasveit, Reykholtsdalur, Flókadalur, Lundarreykjadalur, Bæjarsveit og Andakíll. Hér skal þess freistað að nefna nokkra athyglisverða staði, en um frekari upplýsingar vísast á vef Markaðsstofu Vesturlands í Borgarnesi: www.west.is

Eldborg formfagurt eldfjall sem er í Kolbeinsstaðahreppi hinum forna og er gengið á hana frá Snorrastöðum, sjá www.snorrastadir.com. Fjall eins og Eldborg myndast þegar þunnfljótandi kvika kemur upp um kringlótt gosop í fremur stuttum gosum og án kvikustrókavirkni (flæðigos). Umhverfis gosopið hlaðast upp brattir gígveggir úr hraunslettum.

Hítardalur er forn sögustaður og þar er einstök náttúrufegurð. Borg á Mýrum er rétt við Borgarnes, þar bjó Skalla-Grímur Kveldúlfsson og síðar Egill sonur hans. Á Borg er falleg sögufræg kirkja og minnismerkið „Sonatorrek“ eftir Ásmund Sveinsson.

Borgarnes byggðist fyrst á 19. öld og er í fornum sögum kallað Digranes. Bæjarstæðið þykir einkar fallegt, þar sem skiptast á klapparholt og mýraflákar. Nú búa um 2000 manns í Borgarnesi og fer sú tala ört vaxandi. Í bænum eru nokkrir þekktir sögustaðir úr Egilssögu, s.s. Sandvík, haugur skalla-Gríms og Brákarsund. Hér starfa Landnámssetur, Safnahús Borgarfjarðar og Fornbíla- og samgöngusafn.

Rétt norðan við Bifröst í Norðurárdal er tveir gígar, Stóra- og Litla Grábrók. Sú litla hvarf að mestu við framkvæmdir en sú stóra rís fagurformuð fast við þjóðveginn. Þriðji gígurinn er vestar og heitir Grábrókarfell. Hraun úr gígunum þekur stóran hluta Norðurárdals. Þetta er sérlega fallegt útivistarsvæði.

Reykholt er einn sögufrægasti staður á Íslandi. Sagnaritarinn, fræðimaðurinn og höfðinginn Snorri Sturluson settist að í Reykholti 1206 og var veginn þar haustið 1241. Talið er að í Reykholti hafi Snorri samið sín helstu verk. Í Reykholti eru merkar fornminjar frá miðöldum, þar á meðal Snorralaug. Umfangsmiklar fornleifarannsóknir hafa verið stundaðar í Reykholti á síðustu árum. Ný kirkja var vígð í Reykholti 1996 en gamla kirkjan stendur enn og er hluti af Húsasafni Þjóðminjasafnsins. Í tengslum við nýja kirkju reisti söfnuðurinn Snorrastofu. Snorrastofa býður upp á sögusýningar, fyrirlestra og leiðsögn. Þar er gestaíbúð fyrir fræðimenn, aðstaða fyrir ráðstefnur og mannamót og minjagripaverslun. Mikið er um tónleikahald í Reykholtskirkju, þar á meðal er árleg Reykholtshátíð, síðustu helgina í júlí. Heilsárs hótel er í Reykholti. (sjá ennfr.: http://snorrastofa.is )

Húsafell er útivistarperla í nálægð Eiríksjökuls og Langjökuls. Þar er golfvöllur og sundlaug auk annarrar þjónustu við ferðamenn (www.husafell.is). Frá Húsafelli er ekki langt í Hraunfossa og Barnafoss auk hellanna Surtshellis og Víðgelmis, en í þann síðarnefnda er farið frá bænum Fljótstungu í Hvítársíðu. Páll Guðmundsson á Húsafelli er þjóðkunnur orðin fyrir listsköpun sína og hugmyndaauðgi. Hann notar umhverfi Húsafells mikið í list sinni.

Á Hvanneyri er gömul landnámsjörð. Þar hefur verið starfræktur búnaðarskóli allar götur síðan 1889, og þar hefur Landbúnaðarháskóli Íslands nú aðalstarfsstöð sína. Þar er einnig rekið Ullarsel og Landbúnaðarsafn, hvort tveggja mjög vinsælt af gestum og gangandi (www.ull.is og www.landbunaðarsafn.is).

Í sveitarfélaginu eru margar þekktar laxveiðiár, s.s. Haffjarðará, Hítará, Langá, Norðurá, Þverá, Hvítá og Grímsá svo nokkrar séu nefndar.